Orkuskipti
Ísland getur orðið fyrsta landið í heiminum til að nota eingöngu græna, endurnýjanlega orku. Við notum um milljón tonn af olíu á ári og borgum 100 milljarða króna fyrir. Gætum við hætt því, fengið hreinna loft og bætt lífskjör á Íslandi í leiðinni?
Orkuskipti eru nauðsynleg til að ná loftslagsmarkmiðum Íslands og stuðla um leið að auknu orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands.
Hver er áskorunin?
Ísland notar þrjá orkugjafa: jarðhita, vatnsafl og olíu
Helstu orkugjafar Íslands eru þrír: jarðhiti, vatnsafl og jarðefnaeldsneyti, aðallega olía og bensín. Jarðhitinn og vatnsaflið eru innlendir orkugjafar sem nýttir eru til raforkuvinnslu og hitaveitu. Olían er hins vegar framleidd erlendis og flutt inn. Íslenskt hagkerfi og samfélag notar um milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 100 milljarða króna. 100 milljarðar króna jafngilda verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í 6 mánuði.
Vatnsafl og jarðhiti eru endurnýjanlegir og grænir orkugjafar. Olían sem flutt er til landsins er óendurnýjanleg og mengandi orkugjafi.
Hvað eru endurnýjanlegir orkugjafar?
Endurnýjanlegir orkugjafar eru unnir frá orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þótt af henni sé tekið og helst þannig í jafnvægi af náttúrunnar hendi. Dæmi um endurnýjanlegar orkulindir eru vatn, jarðvarmi, vindur og sól.
Hvað er jarðefnaeldsneyti?
Jarðefnaeldsneyti er orkugjafi sem unninn er úr jarðlögum, t.d. bensín, olía, gas og kol. Jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind, því jarðlögin endurnýjast ekki. Þessar auðlindir fara því þverrandi með hverjum deginum. Notkun jarðefnaeldsneytis veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
Olíunotkun Íslands 2000-2022, þúsundir tonna, með áætluðu magni keyptu erlendis
Notkun á olíu er óumhverfisvæn og hafa íslensk stjórnvöld sett markmið um að Ísland hætti að nota olíu. Olíunotkun náði hámarki árið 2018 og stefnir aftur í sömu hæðir.
Olíunotkun skiptist í fjóra megin flokka
Olía er aðallega notuð á flugvélar, skip, bíla og stærri ökutæki.
Heimurinn allur stendur frammi fyrir því verkefni að hægja á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Notkun olíu er stærsti losunarvaldurinn. Íslensk stjórnvöld hafa sett markmið um að Ísland hætti að nota olíu.
Úr stjórnarsáttmála 2021:
Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.
Hvaðan kemur orkan?
Jarðhitinn er helsti orkugjafi Íslands. Um 60% af frumorkunotkun Íslands er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu.
Um 25% frumorkunotkunar er raforka, sem ýmist er unnin úr vatnsafli eða jarðhita. Eftir standa 15% frumorkunotkunar og til að uppfylla þá þörf brennum við olíu og bensíni á flugvélum, skipum, bifreiðum, vélum og tækjum.
Skipting orkunotkunar Íslands án húshitunar
Raforka - innlend
Raforka - innlend
Olía - innflutt
Olía - innflutt
Olía er flutt til Íslands fyrir 100 milljarða króna á ári, engin orka er flutt úr landi
Ísland telst vera nettó innflytjandi á orku þar sem sú orka sem er framleidd á Íslandi dugir ekki fyrir orkunotkun Íslands.
Hver er lausnin?
Framundan eru orkuskipti, þau ganga út á að við hættum að nota óendurnýjanlega orkugjafa eins og olíu
Hvað eru orkuskipti?
Í orkuskiptum felst að olíunni og bensíninu sem við notum núna er skipt út fyrir orkugjafa með minna kolefnisspor. Orkuskiptin fela þannig í sér mikla breytingu á notkun auðlinda og uppbyggingu orkukerfa. Full orkuskipti miða að því að nota einungis endurnýjanlega og græna orkugjafa á hafi, lofti og landi.
Hvers vegna orkuskipti?
Markmið orkuskipta er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að nýta endurnýjanlega orkugjafa í stað þess að nota olíu og bensín. Hætt verður innflutningi á olíu og bensíni sem þýðir verulegan gjaldeyrissparnað fyrir Ísland ásamt öðrum ávinningi.
Orkuskiptin eru mikilvægasti þátturinn í því að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum
Orkuskipti snúast um að skipta út olíu og öðrum óendurnýjanlegum orkugjöfum fyrir endurnýjanlega orku. Stjórnvöld hafa sett markmið um að Ísland verði laust við olíu árið 2040. Ef innlend endurnýjanleg orka tekur við af olíu mun það tryggja fullt orkusjálfstæði Íslands.
Orkuskipti eru nauðsynleg til að ná loftslagsmarkmiðum
Íslensk stjórnvöld hafa sett háleit markmið til að mæta loftslagsáskorun heimsins: Stefnt er að því að Ísland verði laust við olíu og bensín árið 2040 og jafnframt orðið kolefnishlutlaust. Þá hafa íslensk stjórnvöld sett markmið um samdrátt samfélagslosunar og gefið út að draga þurfi úr árslosun um 1,3 milljón tonn til ársins 2030 frá árinu 2021. Losun vegna jarðefnaeldsneytis innan samfélagslosunar er um 1,6 milljón tonn ár hvert og því ljóst að með orkuskiptum er til mikils að vinna. Til að ná þessum markmiðum leika orkuskipti því stórt hlutverk.
Orkuskipti á Íslandi hafa hingað til verið árangursrík og skilað miklum ávinningi fyrir íslenskt samfélag
Þetta verða ekki fyrstu orkuskiptin á Íslandi. Þau urðu fyrir rúmri öld þegar rafmagn var leitt á heimili og í fyrirtæki. Næstu orkuskipti urðu með hitaveitunni, en nýting jarðvarma hér á landi dró enn úr þörf okkar fyrir olíu og kol til kyndingar. Þessi fyrri orkuskipti voru viðbrögð við hækkandi verði á innfluttu eldsneyti en með orkuskiptunum sem framundan eru er verið að bregðast við loftslagsáhrifum og byggja undir aukið sjálfstæði í orkumálum.
Þriðju orkuskipti Íslands eru framundan
Í tilfelli Íslands snúast þriðju orkuskiptin um að hætta notkun á olíu og nýta þess í stað endurnýjanlega orku. En hver er staða orkuskiptanna og hvað meira þarf að koma til?
Lokið
Rafvæðing hjá heimilum og minni iðnaði, hitaveita.
Framundan
Þungaflutningar á landi og sjó, fiskveiðar, innlendar og alþjóðasamgöngur, flugvélar og skip.
Í vinnslu
Fólksbifreiðar, ferjur, almenningssamgöngur, fiskimjölsverksmiðjur.
Á Íslandi eru framleiddar 20 teravattstundir af raforku á ári.
Um 16 teravattstundir á ári þarf til viðbótar fyrir full orkuskipti, samkvæmt útreikningum sérfræðinga frá EFLU, Samorku, RARIK, Landsneti, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun.
Raforkuþörf vegna orkuskipta
Orkuskiptin framundan eru orkuskipti í flugi, á hafi og í samgöngum á landi. Markmiðið er að hægt verði að nýta endurnýjanlega orku í stað olíu til að knýja allt hagkerfið og samfélagið.
Olíunotkun
Orkuskipti eru mikilvægasti þátturinn í því að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum. Stjórnvöld hafa því sett markmið um að Ísland verði laust við olíu árið 2040.
Raforkuþörf
Til þess að hætta að nota olíu sem orkugjafa þarf að framleiða meiri raforku á Íslandi.
Meiri raforku þarf fyrir flug, skip og flutninga
Ísland flytur inn jarðefnaeldsneyti, olíu og bensín, fyrir 100 milljarða króna á ári. Þegar Ísland hættir að nota innflutt eldsneyti verður orkan að koma annars staðar frá. Í skýrslu stjórnvalda um stöðu og áskoranir í orkumálum kemur fram að til þess að ná fullum orkuskiptum þurfi að u.þ.b. tvöfalda núverandi raforkuframleiðslu á Íslandi. Á 18 árum þarf því að tvöfalda kerfi sem hefur byggst upp á 60 árum.
Orkuþörfin verður ekki umtalsverð fyrst um sinn en eykst mjög hratt milli áranna 2030 og 2040. Hafa þarf í huga að uppbygging í raforkukerfinu krefst margra ára undirbúnings, leyfisferla og framkvæmdatíma.
Hver er munurinn á orkuskiptum og orkusparnaði?
Orkuskipti og orkusparnaður er ekki það sama. Bætt orkunýtni og orkusparnaður munu gegna hlutverki við árangursrík orkuskipti, en þau duga skammt til að ná fram fullum orkuskiptum.
Ef markmið orkuskipta nást getur öll orkunotkun Íslands orðið græn
Orkunotkun Íslands hefur þróast og breyst mikið í gegnum tíðina. Hér má sjá samsetningu orkunotkunar á mismunandi tímabilum.
Hver gæti ávinningurinn orðið?
Efnahagslegur ávinningur Íslands af fullum orkuskiptum fram til ársins 2060 samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær 5 ár.
Heildarumfang fjárfestinga getur numið 800 milljörðum króna, sem samsvarar byggingu 10 nýrra Landspítala.
Orkuskiptin munu draga verulega úr losun Íslands eða sem nemur 88 milljónum tonna CO2 ígilda. Verðmæti þess eru um 500 milljarðar króna.
Í gegnum tíðina hafa orkuskipti aukið lífsgæði Íslendinga verulega. Óumdeilt er að bæði rafvæðing og hitaveituvæðing fyrri áratuga hafi verið mjög ábatasöm fjárfesting fyrir Ísland.
Orkuskiptin sem eru framundan geta einnig orðið mjög ábatasöm samkvæmt nýrri greiningu EFLU verkfræðistofu sem kom út 18. október 2022.
Efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptunum sem nú eru framundan getur numið 1.400 milljörðum króna fram til ársins 2060.
Heildarumfang fjárfestinga vegna orkuskiptanna getur numið 800 milljörðum króna.
Efnahagslegur ávinningur, viðbótarframlag orkuskipta til landsframleiðslu
Uppsafnað núvirt viðbótarframlag raforkuframleiðslu, flutnings og dreifingar til landsframleiðslu 2022 til 2060.
Orkuskipti munu skapa fjölda nýrra starfa
Fjöldi starfa verða til við það að framleiða endurnýjanleg orku með auknum umsvifum í orkuframleiðslu á Íslandi og vegna óbeinna áhrifa.
Orkuskiptin munu draga verulega úr losun Íslands
Fram til ársins 2060 dregst losun gróðurhúsalofttegunda saman uppsafnað um tæplega 90 milljón tonn CO2 ígilda. Núvirt verðmæti þeirra ytri áhrifa af losun sem má forðast með orkuskiptum er um 500 milljarðar króna.
Orkuöryggi og orkusjálfstæði haldast í hendur. Ef markmið um full orkuskipti á Íslandi nást með innlendri orku er hægt að tryggja hvort tveggja.
Hvers vegna orkuöryggi?
Samfélagið allt er háð orku. Öruggt aðgengi að orku er því lykilforsenda þess að samfélagið geti starfað og dafnað. Orkuöryggi er einnig þjóðaröryggismál. Til að skipta út olíu hér á landi þarf að vera nægt framboð af grænni orku í staðinn og sterkir innviðir um allt land.
Hvers vegna orkusjálfstæði?
Í dag er allt samgöngukerfið á Íslandi háð þeim þjóðum sem framleiða olíu. Með því að skipta olíu út fyrir græna orku sem framleidd er innanlands verður samfélagið sjálfbært um orkuna sem það þarf. Þá verður íslenskt samfélag ekki fyrir áhrifum af utanaðkomandi þáttum sem haft geta áhrif á framboð eða verð á olíu, til dæmis vegna stríðsátaka.
Á vefnum orkuskipti.is er stuðst við gögn frá eftirfarandi: Orkustofnun, Hagstofu Íslands, greiningu Samorku, unnin af Eflu og fleirum, gefin út af Samorku 15. mars 2022, greiningu Eflu unnin fyrir orkuskipti.is, gefin út 18. október 2022, grænbók um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, gefin út af Stjórnarráði Íslands 8. mars 2022.